Friday, October 24, 2008

íslenskur körfubolti í dag

Eftir að útlendingarnir hurfu að mestu úr íslenskum körfubolta var ég einn þeirra sem hélt að það myndi styrkja boltann til muna. Íslenskir leikmenn myndu fá fleiri tækifæri og deildin yrði ennþá jöfn, það var mér sérstaklega mikið fagnaðarefni að Grindavík skyldu ákveða að senda sína kana heim (eins leiðinlegt og það er fyrir einstaklingana sjálfa) þar sem Grindavík eru með mjög, mjög gott lið af íslendingum. Kr gerðu það ekki, það er allt í lagi ég myndi ekki gagnrýna þá fyrir að reyna að sila sínu besta mögulega liði, þetta snýst um að vinna. Það sem ég hef samt tekið eftir, og þetta er einungis úrslit sem ég sé á netinu, ég er ekki búsettur á Íslandi, er að þessi tvö lið eru í sér klassa. Það er mikil spenna dottin úr deildinni verð ég að segja, KR til að mynda völtuðu yfir Breiðablik núna áðan með c.a 30 stigum. Þá áttaði ég mig á því hvað kanarnir gerðu í raun og veru fyrir deildina, þeir jöfnuðu hana út. Til að mynda, ef Breiðablik hefðu fengið góðan kana og bosman (sem þeir og gerðu) þá hefði þessi leikur verið mun meira spennandi fyrir fram. Úrslitin hefðu að kannski verið þau sömu en það hefði verið meira sjokk.

Í mínum huga eru 3 lið í deildinni núna, Tindastóll, Grindavík og KR. Tindastóll eru með gamaldags solid lið, gamaldags af því það er byggt í kringum aðallega tvo íslenska leikmenn (Svavar og Ísak) og síðan eru fengnir útlendingar til að fylla upp í (þeir eru líka út á landi og þar með með mjög sterkar heimavöll). Allt í lagi með það, KR eru með hálft landsliðið innan sinna raða (djók, þeir eru bara með þrjá landsliðsmenn... nei, fjóra) og síðan Kana, Grindavík eru síðan með hinn helminginn af landsliðinu. Það er því áhugavert að sjá lið eins og Skallagrím (sem falla að mínu mati) sem hafa verið mjög góðir upp á síðkastið ganga í gegnum skriðu eftir skriðu stórra ósigra, kannski ekki skrítið ef litið er á leikmannahópinn. FSU hafa verið óstabílir til að byrja með enda með ungt lið en þeir eiga eftir að veita liðum skráveifu og ég efast um að þeir falli. ÍR eru því miður í sömu stöðu og Skallagrímur en samt sem áður með nokkra íslenska burðarbita sem gætu haldið þeim uppi en þeir unnu KR í úrslitakeppninni í fyrra og tóku Íslandsmeistar Keflavíkur í 5 leiki, leiddu þar á meðal 2-0 ef mig minnir rétt. Þeir gætu vel fallið.

Af hverju tala ég einungis um þessi lið? Hin 6 liðin eiga að mínu mati ekki séns í titilinn nema að Grindavík hrökkvi í úrslitakeppninni (það gerist að vísu alltaf...) því KR er ekki að fara að gera slíkt. Akkúrat núna sé ég ekkert lið vinna KR og ég myndi aldrei setja mína peninga á móti Grindavík í neinum leik nema þegar þeir spila við fyrrnefnt KR lið. Hvernig er það spennandi? Ég er ekki að sjá það, eins og deildin var jöfn í fyrra hefur bilið milli bestu liðanna breikkað núna. Að vísu verður baráttan um sæti í úrslitakeppninni hörð og sum lið eru jöfn þar en það er erfitt að vera ekki nákvæmlega sama þegar það er vel vitað að þau geta ekki gert risanum skráveifu. Samt skemmtilegt að sjá önnur lið en Keflavík og Njarðvík í þessari umræðu, ekki af því ég hata þessi lið eitthvað sérstaklega heldur bara af því mig langar að sjá aðra liti í úrslitunum.

Á meðan ég man, FSU tekur 8. sætið. KR vinnur deildarbikarinn og Íslandsmeistaratitilinn. Stjarnan tekur bikarinn, ég veit ekki af hverju, ég segji bara svona.

No comments: